Ákvörðun sveitarsjórnar Flóahrepps frá 13. júní sl. um að leggja fram aðalskipulag „án“ Urriðafossvirkjunar var eins og fram hefur komið í fréttum síðan breytt í „tvær“ skipulagstillögur, ein með og ein án virkjunarinnar. Landsvirkjun var snögg í Flóann eftir að fyrsta tillagan var kynnt og kom með mótleik sem að íbúum Flóans var nú kynnt og þeir gerðu gys að á fundinum í gærkveldi. Um 150 manns mættu á fundinn og hver ræðumaður á fætur öðrum hvöttu sveitarstjórnina til að standa við fyrri tillögu þ.e. að leggja fram skipulag „án virkjunarinnar“, enda væri hvorki Þjórsá né Urriðafoss til sölu né nokkur þörf á virkjun nú.

Áður var reyndar ekkert í boði fyrir framtaksemi Landsvirkjunar á 70 hektar svæði við Urriðafoss en nú eru s.s. í boði að laga tvo vegi (vegbætur fyrir Urriðafossveg og Hamarsveg við lok framkvæmdatímans), bætt gsm-samband, ný vatnsaðveitulögn og rúsínan í pysluendanum, til að bæta fyrir skerðingu sem yrði vegna hvarfs Urriðafoss og ferðamannafæð þess vegna, en það myndi þá vera „útsýnispallur“ þar sem að ferðamönnum gæfist tækifæri til að skoða virkjanaframkvæmdir og mannvirki Landsvirkjunar, séð frá Flóanum. Fulltrúi Lansvirkjunar Helgi Bjarnason átti í vök að verjast er hann reyndi að útskýra að ekki væri um mútur að ræða heldur... reyndar koma ekki fram hvað þetta væri annað nema að ekki hafi nú fyrst verið byrjað að ræða um hvað Landsvirkjun gæti gert fyrir sveitarfélagið í staðinn fyrir að taka frá því Urriðafoss. Flóabúar vita þó vel að það sem Landsvirkjur bauð er lögboðin skylda Samgönguráðuneytisins, Vegagerðarinnar og fjarskiptafyrirtækja að sjá um, ekki Landsvirkjunar, nema að sjálfsögðu kynningaraðstaðan og útsýnispallur yfir framkvæmdir Landsvirkjunar. Varla er hægt að telja það sem framlag til annarra en Landsvirkjunar sjálfrar, þ.e.a.s. fyrir þá sem sjá virkjunina sem afrek í mannvirkjagerð.

Myndin er frá fundinum. Ljósmynd: Guðrún Tryggvadóttir. 

Birt:
26. júní 2007
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Tvær skipulagstillögur harðlega gagnrýndar“, Náttúran.is: 26. júní 2007 URL: http://nature.is/d/2007/06/26/tvr-skipulagstillgur-harlega-gagnrndar/ [Skoðað:24. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 9. júlí 2007

Skilaboð: