Nýtt hlutafé selt fyrir 21 milljarð króna

Geysir Green Energy (Geysir) tilkynnti í dag að Geysir ásamt samstarfsaðilum félagsins í Norður Ameríku hafi selt hlutafé fyrir 21 milljarða ISK í ný afstöðnu hlutafjárútboði kanadíska félagsins GTO Resources Inc. Hlutaféð er selt í tengslum við sameiningu GTO við þrjú jarðhitafélög; Polaris Geothermal (GEO), Ram Power Incorporated (RPI) og Western Geopower (WGP). Tvö hin síðarnefndu eru að hluta í eigu Geysis.
 
Samruni félaganna fer þannig fram að kanadíska félagið GTO gerir hluthöfum félaganna, RPI, WGP og GEO tilboð um að skipta á hlutafé sínu og hlutafé í GTO. Stærstu hluthafar félaganna, þ.m.t. Geysir, hafa þegar samþykkt að skipta hlutafé sínu fyrir hlut í GTO. Í tengslum við samrunann hefur nýtt hlutafé að upphæð 179 milljónir kanadadollara verið selt til nýrra fjárfesta. Nú tekur við kynningartímabil þar sem samruninn er kynntur fyrir almennum hluthöfum félaganna. Þann 3. nóvember greiðist hið nýja hlutafé til GTO sem á sama tíma mun taka upp nafnið í Ram Power Corporation. Hlutafé þess verður skráð í kauphöllinni í Toronto í Kanada. Hlutur Geysis í hinu sameinaða félagi verður um 6%.
 
Starfsemi Ram Power Incorporated, Western Geopower og Polaris Geothermal er á sviði jarðhitanýtingar til raforkuframleiðslu í Bandaríkjunum, Kanada og Níkaragva.
 
Polaris Geothermal á og rekur 10 MW jarðorkuver á San Jacinto Tizate jarðhitasvæðinu í Níkaragva. Félagið ráðgerir að taka 72 MW orkuver í notkun vorið 2011. Polaris hefur þegar selt yfir 100 þúsund tonn af svokölluðum kolefnakvótum (CERs) á grundvelli Loftslagssamnings Sameinuðu Þjóðanna. Geysir hefur átt samvinnu við Polaris í gegnum íslenska félagið Exorku sem vinnur að nýtingu Kalina tækni við lághita. Polaris er skráð í kauphöllinni í Toronto í Kanada (TSX:GEO).
 
Ram Power Incorporated (RPI) er verkefnaþróunarfélag á sviði jarðvarma í Nevada og Kaliforníuríki í Bandaríkjunum. RPI hefur m.a. undirritað orkusölusamning fyrir allt að 300 MW í Imperial Valley, Kaliforníu. Félagið hefur á að skipa einu reyndasta jarðhitaþróunarteymi í Bandaríkjunum. RPI hefur átt náið samstarf við Geysi frá 2008, en Geysir á 37% í félaginu.
 
Western Geopower er jarðhitafélag sem vinnur að uppbyggingu 35 MW orkuvers á Geyser svæðinu í Suður- Kaliforníu. Félagið vinnur að auki að verkefnum á South Brawley svæðinu í Kaliforníu og í South Meager, í Bresku Kólumbíu,Kanada. WGP er skráð í kauphöllinni í Toronto í Kanada (TSX:WGP). Geysir á 18.2% í félaginu.

Birt:
22. ágúst 2009
Höfundur:
Geysir Green Energy
Tilvitnun:
Geysir Green Energy „Geysir og samstarfsaðilar sameina jarðvarmafélög í Ameríku“, Náttúran.is: 22. ágúst 2009 URL: http://nature.is/d/2009/08/22/geysir-og-samstarfsaoilar-sameina-jarovarmafelog-i/ [Skoðað:20. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: