„Borgin ætlar að sýna gott fordæmi og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og bæta loftgæðin með því að gera starfsemi borgarinnar visthæfa og hvetja fyrirtæki og íbúa til að gera það sama,“ segir Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir formaður umhverfis- og samgönguráðs í tilefni af því að Reykjavíkurborg hefur óskað eftir umsögnum, hugmyndum og áliti á drögum að Stefnu og aðgerðaráætlun í loftlags- og loftgæðamálum borgarinnar.

„Stefnan og aðgerðaráætlunin er forsenda fyrir mörgum nýjum grænum skrefum sem við þurfum að stíga til að krafan um að sporna við hlýnun jarðar og að lágmarka loftmengun í borginni nái fram að ganga,“ segir Þorbjörg Helga og að leitað sé til hagsmunaaðila og borgarbúa um álit og hugmyndir vegna þess að mikilvægt er að fá viðbrögð við vinnunni á þessu stigi.

Hægt er að senda viðbrögð við drögunum til 31. mars. Eygerður Margrétardóttir framkvæmdastýra Staðardagskrár 21 segir að í apríl verði unnið úr þeim ábendingum sem berast og heildarmarkmið sett um losun gróðurhúsaloftegunda og loftgæði

Nefna má sem dæmi að losun gróðurhúsalofttegunda og loftmengun í Reykjavík er langmest frá bifreiðum og þar eru því góð tækifæri til að ná markmiðum. Stefnan er því að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda frá samgöngum í Reykjavík og lágmarka áhrif samgangna á loftgæði. Markmiðið felst í því að styðja við aukna notkun vistvænna samgöngukosta og draga úr ferðaþörf íbúa og starfsmanna Reykjavíkurborgar. Til að ná þessu markmiði þarf að hrinda nokkrum aðgerðum í framkvæmd, meðal annars að setja reglur um að fyrirtæki og stofnanir setji sér samgöngustefnu til að draga úr umhverfisáhrifum af ferðum starfsmanna. Önnur aðgerð felst í því að borgin móti umgjörð til að hvetja fólk til að hjóla og ganga til og frá vinnu.

Stefnan og aðferðaáætlunin er langtímaverkefni en dæmi um skammtímaaðgerðir er viðbragðsáætlun Heilbrigðisnefndar Reykjavíkurborgar um loftgæði í borginni sem var samþykkt í byrjun mars 2009. Hún var unnin í samræmi við væntanlega stefnu og aðgerðaáætlun í þessum málaflokki.

Nokkur græn skref í Reykjavík sem stigin hafa verið undanfarin ár hafa falist í því að draga úr loftmengun, s.s. að gefa ókeypis í strætó fyrir framhaldsskólanemendur, planta trjám til að binda kolvetni, bæta aðstæður fyrir gangandi og tvöfalda hjólastíga og leggja forgangsrein fyrir strætó. Enný á fara þó of margir einir í einkabíl til og frá vinnu eða skóla.

Þorbjörg Helga segir að bæði borgin og borgarbúar geti lagt margt til í þessum málaflokkum, t.d. getur borgin lagt stund á vistvæn innkaup og haft loftlags- og loftgæðamál í hávegum í skipulagi og framkvæmdum í borginni.

Níu áhersluflokkar eru settir fram í drögunum að Stefnu og aðgerðaáætlun um loftslag og loftgæði: kolefnisbinding, úrgangsmál, samgöngumál, framkvæmdir, utanaðkomandi áhrif, vistvænn rekstur, skipulagsmál, iðnaður og landbúnaður, orkuframleiðsla.

Skila ber umsögn eða hugmyndum um stefnuna og aðgerðaáætlunina fyrir 31. mars 2009 á netfangið: eygerdur.margretardottir@reykjavik.is
Birt:
17. mars 2009
Höfundur:
Gunnar Hersveinn
Tilvitnun:
Gunnar Hersveinn „Taktu þátt í að móta ný græn skref fyrir Reykjavíkurborg“, Náttúran.is: 17. mars 2009 URL: http://nature.is/d/2009/03/17/taktu-thatt-i-ao-mota-ny-graen-skref-fyrir-reykjav/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: