Fjóla Jóhannsdóttir er fædd á Akureyri árið 1933 en flutti árið 1942 til Reykjavíkur og hefur búið þar síðan. Fjóla er einnig með athvarf á Vatnsleysuströndinni þar sem hún og fjölskylda hennar stunda ýmsa ræktun og hlaða batteríin í nálægð við náttúruna. Fjóla er dóttir Bjargar Lilju Jónsdóttur sem var mikil grasakona og lærði sjálf af Þórunni grasakonu (móður Erlings grasalæknis) og tengdamóður sinni Guðnýju Magnúsdóttur. Björg Lilja fæddist í Fljótum í Skagafirði en flutti nýgift til Fáskrúðsfjarðar, Akureyrar og síðast til Reykjavíkur. Að sögn Fjólu var heimilishaldið ákaflega náttúrutengt og það notað sem til féll auk þess sem soðin voru niður bæði smyrsl og seyði til að hlúa að eymslum og flýta bata í pestum.

Dóttir Fjólu er Þuríður Guðmundsdóttir eigandi Móu ehf. en Þuríður hefur um árabil staðið að þróun og framleiðslu bæði snyrtivara og áburða undir nöfnunum Móa, taer icelandic, Græna kremið og Náttúrunnar snyrtivörur.
Þuríður lærði af ömmu sinni og mömmu frá unga aldri og eru því fræðin í blóð borin.
Fjóla er um þessar mundir að koma visku sinni fyrir í Grasaskjóðunni. Guðrún Tryggvadóttir sótti Fjólu heim og kynnti henni Grasaskjóðuna og fékk að sjá framleiðslu hennar í kryddum úr t.d. morgunfrú [Calendula officinalis] og hvítsmára [Trifolium repens] auk áburða sem hún sþður reglulega niður fyrir fólk „sem kemur alltaf aftur“ að sögn Fjólu. Á myndinnni lengst til hægri eru vetrarbirgðir Fjólu af Maríustakk [Alchemilla vulgaris] í grasaskjóðu hennar. Grein um Grasaskjóðuna er að finna í haustblaði Heilsuhringsins 27. árgangi og í 16 tbl. Bændablaðsins á bls. 12 (náið í greinina hér).

Ljósmynd: Einar Bergmundur

Birt:
12. nóvember 2005
Uppruni:
Náttúran.is
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Fjóla leggur til efni í Grasaskjóðuna“, Náttúran.is: 12. nóvember 2005 URL: http://nature.is/d/2007/03/22/efni_grasaskj_fjola/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
skrifað: 22. mars 2007
breytt: 29. apríl 2010

Skilaboð: