Listasafn Reykjanesbæjar tekur nú í fyrsta sinn þátt í Listahátíð í Reykjavík. Sýningin sem listasafnið teflir fram nefnist Þríviður og er samsýning þeirra Hannesar Lárussonar, Guðjóns Ketilssonar og Helga Hjaltalíns Eyjólfssonar, en þeir eiga það sameiginlegt að vinna mikið með skúlptúra og innsetningar og að nota trjávið í miklum mæli við gerð verka sinna. Meðhöndlun listamannanna á þessum ævagamla efniviði er ansi fjölbreytt, en áherslur þeirra bera þó keim af hugmyndalist og félagslega meðvitaðri myndlist síðari ára. Á sýningunni er verkum þeirra stillt upp þannig að þau kallast á og kveikja neista hvert af öðru. Um leið er grennslast fyrir um hlutverk trjáviðar í íslenskri myndlist og tengslin við útskurðarlist fortíðar. Sýningarstjóri er Aðalsteinn Ingólfsson. Sýningin verður opnuð á sunnudagskvöld kl. 20 og stendur fram til 18. ágúst.

En listahátíðin í Reykjavík er ekki sú eina sem hefst nú um helgina; Listasafn Reykjanesbæjar hefur í samvinnu við sex leikskóla þar í bæ unnið að sérstakri Listahátíð barna sem haldin verður í Duushúsum næstu daga í tilefni af Degi barnsins sem haldinn er hátíðlegur 25. maí á hverju ári. Hátíðin verður opnuð formlega í dag kl. 10.30 með því að bæjarstjóri opnar listsýningu í Bíósal Duushúsa þar sem sjá má myndlistarverk eftir elstu árganga Heiðarsels, Holts, Garðasels, Tjarnasels, Vesturbergs og Hjallatúns. Verkin á sýningunni, sem ber heitið Börn, eru unnin sérstaklega fyrir þetta tilefni. Á sýningunni má einnig lesa um væntingar barnanna til framtíðarinnar. Mánudag, þriðjudag og miðvikudag verða svo skipulagðar uppákomur fyrir og eftir hádegi með leik og söng í umsjá ofantaldra leikskóla og er öllum heimilt að koma og skemmta sér á meðan húsrúm leyfir. Uppákomurnar verða kl. 10.30 og 13.30 og fara fram í Gryfjunni í Duushúsum. Myndlistarsýningin í Bíósal stendur til 26. maí.

Birt:
16. maí 2008
Höfundur:
Uppruni:
Fréttablaðið
Tilvitnun:
vþ „Tréverk og listahátíð barna“, Náttúran.is: 16. maí 2008 URL: http://nature.is/d/2008/05/16/treverk-og-listahatio-barna/ [Skoðað:29. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: