Skjáskot úr kvöldfréttatíma Ríkissjónvarpsins þ. 20. des. 2014.Áréttar ábendingar til forsætisráðuneytis

Ríkisendurskoðun áréttar ábendingar til forsætisráðuneytisins um fjárveitingar af fjárlagaliðnum græna hagkerfið. Stofnunin gerði í sumar athugasemdir við fjárlagaliðinn og gagnrýndi úthlutun ráðuneytisins af honum.

Í lok árs í fyrra færði forsætisráðuneytið til sín frá umhverfis- og auðlindaráðuneyti fjárlagalið Græna hagkerfisins.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi í sumar meðhöndlun forsætisráðherra á fjárlagaliðnum í fyrra, og að engu hefði verið ráðstafað til verkefna sem tilgreind eru í þingsályktun um eflingu græna hagkerfisins. En þar er lögð áhersla á hreina náttúru, sjálfbæran orkubúskap, nýsköpun og menntun til sjálfbærni. Í fyrra fór fjárveitingin til Þjóðminjasafnsins, Minjastofnunar og skrifstofu forsætisráðuneytisins.

Ríkisendurskoðun gagnrýndi að óskað væri eftir fjárveitingum sem væri ætlað að færa til stofnana sem þegar eru á sérstökum fjárlagaliðum. Í ár hafði ráðuneytið yfir að ráða 190 milljónum króna á fjárlagaliðnum, sem ekki hafði verið ráðstafað þegar skýrsla Ríkisendurskoðunar kom út í sumar.

Nú liggur ráðstöfun fjármuna fyrir. Úthlutunin tók ekki mið af gagnrýni Ríkisendurskoðunar og svo virðist sem engu sé varið til uppbyggingar græna hagkerfisins, heldur fer fjárveitingin að nýju til Minjastofnunar, Þjóðminjasafns og skrifstofu forsætisráðuneytisins, auk annarra verkefna.

Kristín Kalmansdóttir, sviðstjóri hjá Ríkisendurskoðun, áréttar fyrri ábendingar Ríkisendurskoðunar. „Þetta var einmitt eitt af því sem við gagnrýndum í þessari skýrslu og þar bentum við á að framsetning þessa fjárlagaliðar væri villandi, og tengingin við græna hagkerfið væri óljós. Þessi skýrsla var síðan kynnt fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd í október, og var tekin til umfjöllunar þar, og nefndin ákvað að framvísa þessu máli, og fleiri atriðum í skýrslunni til fjárlaganefndar.“

Sjá frétt Ríkissjónvarpsins þ. 20. des. 2014.

Birt:
21. desember 2014
Tilvitnun:
Ríkisútvarpið ohf „Ekki úthlutað til græna hagkerfisins“, Náttúran.is: 21. desember 2014 URL: http://nature.is/d/2014/12/21/ekki-uthlutad-til-graena-hagkerfisins/ [Skoðað:28. mars 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.

Skilaboð: