Á Græna kortinu:

Vottað lífrænt

Undirstaða lífræns landbúnaðar er frjósemi jarðvegs, skiptiræktun, lífrænn áburður og velferð búfjár með nægri útivist, rými og lífrænu fóðri. Afurðir má selja með tilvísun til lífrænna aðferða ef óháð vottunarstofa  staðfestir að framleiðslan uppfylli staðla.

Matur úr héraði

Matur sem er ræktaður og unninn í nágrenni. Ekki endilega vottuð lífræn framleiðsla nema slíkt sé tekið sérstaklega fram.

Umhverfisfræðsla

Allt frá skipulögðu námi á öllum skólastigum, til einstakra umhverfisfræðslunámskeiða og fyrirlestra ætluðum almenningi.

Álfabyggð

Trú á álfa og tröll er sennilega tengd keltneskri arfleifð okkar, sem og óbilgjarnri náttúru og veðráttu. Hér kortleggjum við helstu staði sem taldir eru vera byggðir álfa, anda eða annarra yfirnáttúrulegra fyrirbæra.

Nýsköpun í heimabyggð

Nýsköpun þar sem náttúruafurðir og vistvænar/sjálfbærar framleiðsluaðferðir eru í hávegum hafðar.

Vottanir og viðurkenningar:

Vottað lífrænt - Tún

Á Íslandi annast Vottunarstofan Tún eftirlit með lífrænni framleiðslu. Í lífrænni ræktun felst að varan hefur verið ræktuð með lífrænum aðferðum, án eiturefna, tilbúins áburðar, hormóna eða erfðabreyttra lífvera. Vottað er í samræmi við reglugerð Evrópusambandsins um lífræna landbúnaðarframleiðslu og reglur Túns um lífræna snyrtivöruframleiðslu og matreiðslu. Samkvæmt þeim er óheimilt að markaðssetja landbúnaðarvörur sem lífrænar nema þær hafi verið framleiddar í samræmi við ákvæði þessara staðla. Vottunin staðfestir að lífrænum aðferðum hafi verið beitt en metur ekki umhverfisáhrif vörunnar eða umbúða hennar.

Matarklasi Suðurlands - hefðir úr héraði

Matarklasi Suðurlands og Vestmannaeyja hefur það að markmiði að varðveita og hefja til vegs og virðingar hefðir úr héraði í matargerð í anda hinna alþjóðlegu „Slow Food/Hægrar matarmenningar“ samtaka. Með því að nýta hráefni úr næsta nágrenni okkar svo sem unnt er styrkjum við matvælaframleiðslu og aukum fæðuöryggi þjóðarinnar. Það styttir auk þess flutningsleiðir, minnkar mengun og sparar flutningskostnað. Matarklasi Suðurlands hefur þó ekki verið virkur í nokkur ár.

Skilaboð: