Iðnaðarnefnd Alþingis ( Skúli Helgason, form., frsm, Gunnar Bragi Sveinsson, Jón Gunnarsson, Tryggvi Þór Herbertsson, Margrét Tryggvadóttir, Jónína Rós Guðmundsdóttir, Sigmundur Ernir Rúnarsson, Lilja Rafney Magnúsdóttir ) mæltu með þingsályktun sem samþykkti var á Alþingi þ. 10. júní sl. um að koma á fót nefnd um eflingu græns hagkerfis. Sjá þingsályktunartillöguna hér.

Sjá yfirlit yfir feril málsins á vef Alþingis.

Í nefndarátliti frá 7. júní sl. kemur fram:

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Valborgu Steingrímsdóttur frá Orkustofnun. Þá bárust umsagnir frá Byggðastofnun, Fjárfestingarstofunni, Landmælingum Íslands, Landsvirkjun, Náttúrufræðistofnun Íslands, Orkubúi Vestfjarða ohf., Orkustofnun, Samorku – samtökum orku- og veitufyrirtækja, Samtökum ferðaþjónustunnar, Sorpu bs., Umhverfisstofnun, Vegagerðinni, Vesturlandsskógum og Viðskiptaráði Íslands.

Í tillögunni er lagt til að hafinn verði undirbúningur að eflingu græna hagkerfisins á Íslandi með markmið sjálfbærrar þróunar að leiðarljósi. Lagt er til að Alþingi kjósi níu manna nefnd með fulltrúum allra þingflokka sem fái það verkefni að kortleggja sóknarfæri íslensks atvinnulífs á sviði grænnar atvinnusköpunar og leggja fram tillögur um stjórnvaldsaðgerðir sem ýtt geti undir atvinnusköpun á þessu sviði. Nefndinni er ætlað að skila niðurstöðum sínum fyrir 1. desember 2010.

Nefndin hefur fjallað um málið og er hún sammála meginefni tillögunnar. Nefndin leggur þó til breytingu á skilatíma nefndarinnar í þá veru að hún fái rýmri tíma til að skila niðurstöðum í ljósi þess hve langt er liðið á árið. Nefndin leggur því til að nefndin skili niðurstöðum fyrir 1. mars 2011.

Einstakir umsagnaraðilar hreyfðu þeim sjónarmiðum að mikilvægt væri að skilgreina nánar hvað fælist í hugtökunum sjálfbærni og sjálfbærri þróun og nauðsynlegt væri að tekin yrði afstaða til þess við hvaða skilgreiningu ætti að miða í því verkefni sem hér um ræðir. Hafa verður í huga að ef hugtökin eru notuð án frekari skýringa geta þau orðið merkingarlaus. Tekur nefndin undir þessi sjónarmið og áréttar að þar sem til eru fleiri en tvær skilgreiningar á hugtakinu sé nauðsynlegt að settur verður skýr rammi þar að lútandi. Það er álit nefndarinnar að rétt sé að miða við þá skilgreiningu á sjálfbærri þróun sem felur í sér samþættingu á hagrænum, félagslegum og umhverfislegum sjónarmiðum við mótun atvinnu- og efnahagsstefnu.

Nefndin er sammála þeim ábendingum er komu fram hjá umsagnaraðila að mikilvægt sé að sú nefnd sem skipuð verði af Alþingi fjalli sérstaklega um hlut skógræktar í sjálfbærri þróun og eflingu græns hagkerfis en hugtakið sjálfbær þróun á rætur sínar að rekja til umfjöllunar um skógrækt.

Nefndin lagði til að tillagan yrði samþykkt með eftirfarandi breytingum:

  1. Í stað orðanna „samþætta hugmyndafræði sjálfbærrar þróunar almennri ákvarðanatöku í efnahags- og atvinnumálum“ í fyrri málsgrein komi: styrkja stöðu sjálfbærrar þróunar í efnahags- og atvinnustefnu þjóðarinnar.
  2. Í stað orðanna „fyrir 1. desember 2010“ í síðari málsgrein komi: fyrir 1. mars 2011. Atli Gíslason var fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Í nefndina voru eftirfarandi fulltrúar kosnir þann 6. september sl.: Arna Lára Jónsdóttir, Illugi Gunnarsson, Bergur Sigurðsson, Guðmundur Steingrímsson, Dofri Hermannsson, Þorbjörg Helga Vigfúsdóttir, Salvör Jónsdóttir, Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Skúli Helgason.

Starfsmaður nefndar um eflingu græns hagkerfis var auglýst seinni hluta sumars en um 80 umsækjendur sóttu um starfið. Elfa Dögg Þórðardóttir, M.Sc umhverfis- og auðlindastjórnun var ráðin í starfið. Elfa Dögg var mannvirkja- og umhverfisfulltrúi Hveragerðis á síðastliðnum árum og var í 2. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Árborg í síðustu bæjarstjórnarkosningum og situr nú í bæjarstjórn Árborgar.

Birt:
12. október 2010
Tilvitnun:
Guðrún Arndís Tryggvadóttir „Nefnd um grænt hagkerfi “, Náttúran.is: 12. október 2010 URL: http://nature.is/d/2010/10/12/nefnd-um-graent-hagkerfi/ [Skoðað:23. apríl 2024]
Efni má nota eða vitna í samkvæmt almennum venjum sé heimilda getið með slóð eða fullri tilvitnun hér að ofan.
breytt: 13. október 2010

Skilaboð: